Sarri var reiður

Maurizio Sarri.
Maurizio Sarri. AFP

Maurizio Sarri knattspyrnustjóri Chelsea gat ekki haldið aftur af reiði sinni eftir tap sinna manna gegn nýliðum Wolves í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld.

Eftir að hafa komist í 1:0 með marki frá Ruben Loftus-Cheek svöruðu Úlfarnir með mörkum frá Raul Jimenez og Diogo Jota og Chelsea mátti sætta sig við annað tapið í deildinni á tímabilinu en liðið tekur á móti Englandsmeisturum Manchester City á laugardaginn. Chelsea er í 4. sæti deildarinnar, tíu stigum á eftir toppliði City.

„Eftir þennan leik er sjálfstraustið minna en kannski er það betra því stundum hafa leikmenn mínir sýnt mér að þeir hafi of mikið sjálfstraust,“ sagði ítalski knattspyrnustjórinn eftir leikinn.

„Ég er mjög áhyggjufullur. Ekki vegna úrslitanna en heldur vegna þeirrar staðreyndar að eftir að við fengum á okkur fyrsta markið litum við ekki vel út. Ég hef áhyggjur af því en ekki úrslitunum. Við spiluðum vel í 55 mínútur en eftir að Wolves jafnaði metin urðum við skyndilega annað lið. Ég veit ekki af hverju og ég held að það snúist ekki um breytingarnar sem ég gerði á liðinu heldur hugarfarið í liðinu,“ sagði Sarri.

Sarri segir að það verði mikil barátta um að ná Meistaradeildarsæti og hann segir að það stefni í einvígi Manchester City og Liverpool um meistaratitilinn. Eins og áður segir tekur Chelsea á móti Manchester City á laugardaginn.

„Manchester City er í öðrum flokki en við þurfum að berjast um að ná einu af fjórum efstu sætunum og það verður erfitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert