Stjóri Jóns Daða rekinn

Jón Daði Böðvarsson í leik með Reading.
Jón Daði Böðvarsson í leik með Reading. Ljósmynd/Reading

Enska B-deildarliðið Reading, sem landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson leikur með, rak í morgun knattspyrnustjórann Paul Clement úr starfi.

Illa hefur gengið hjá Reading á leiktíðinni en liðið er í 21. sæti af 24 liðum og er stigi frá fallsæti. Clement tók við liði Reading í mars og undir hans stjórn tókst liðinu að halda sæti sínu í deildinni.

Reading hefur aðeins unnið fjóra leiki af 18 í deildinni og forráðamenn félagsins hafa nú ákveðið að reka Clement frá störfum.

Jóns Daða hefur verið sárt saknað í liði Reading en landsliðsmaðurinn hefur verið frá keppni síðustu vikurnar vegna bakmeiðsla en hann fór afar vel af stað á tímabilinu og skoraði 7 mörk í fyrstu 11 leikjunum en hefur ekki verið með liðinu í síðustu sjö leikjum í deildinni.

 

mbl.is