City án tveggja öflugra á Brúnni

Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City. AFP

Englandsmeistarar Manchester City verða án tveggja öflugra leikmanna á morgun þegar það sækir Chelsea heim í stórleik 16. umferðar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City staðfesti á fréttamannafundi í dag að Sergio Agüero og Kevin De Bruyne verði ekki í liðinu en báðir glíma þeir við meiðsli.

Fjarvera þeirra ætti ekki að hafa nein áhrif enda er leikmannahópur Manchester City gríðarlega sterkur og valinn maður í hverju rúmi.

City hefur verið óstöðvandi á leiktíðinni. Liðið hefur unnið 13 leiki og gert tvö jafntefli í fyrstu 15 umferðunum og er með tveggja stiga forskot á Liverpool á toppi deildarinnar.

„Á morgun er annað stórt próf fyrir okkur. Hvernig við spilum á móti einu af bestu liðum á einu af stærsta sviðinu. Hvernig mun Chelsea svara fyrir sig eftir að hafa tapað?“ sagði Guardiola.

mbl.is