Þetta er allt öðruvísi starf

Paul Scholes.
Paul Scholes. AFP

Paul Scholes lét lítið fara fyrir sér utan vallar sem leikmaður Manchester United og gaf fjölmiðlum fá færi á sér en eftir að hann lagði skóna á hilluna hefur Scholes verið iðinn að láta gamminn geysa og þá aðallega um félag sitt, Manchester United.

Scholes hefur ekki verið sáttur við leik félags síns og knattspyrnustjórann José Mourinho, sem er undir mikilli pressu vegna hörmulegs gengis liðsins í deildinni en eftir 15 umferðir er Manchester-liðið í áttunda sæti, heilum 19 stigum á eftir grönnum sínum í Manchester City sem trónir á toppi deildarinnar.

Frakkinn Zinedine Zidane er einn þeirra sem hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá United fari svo að Mourinho verði látinn taka poka sinn en Scholes hefur efasemdir um að Zidane sé rétti maðurinn í starfið.

„Er Zidane rétti maðurinn,“ sagði Scholes í viðtali við sjónvarpsstöðina BT Sport.

„Hann fór til Real Madrid sem hafði hóp af leikmönnum sem voru sigurvegarar. Þetta er algjörlega ólíkt starf. Hann þyrfti að byggja upp sjálfstraust hjá liði sem hefur ekki verið að spila vel. Hjá Real Madrid voru margir frábærir leikmenn. Það var samt erfitt en þetta yrði allt öðruvísi,“ sagði Scholes.

Undir stjórn Zidane vann Real Madrid þrjá Evrópumeistaratitla en hann lét af störfum hjá Madridarliðinu í sumar. Nú segist Zidane reiðbúinn að snúa aftur í þjálfun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert