Af hverju er Pogba á bekknum?

José Mourinho á hliðarlínunni á Old Trafford í dag.
José Mourinho á hliðarlínunni á Old Trafford í dag. AFP

Paul Pogba er kominn í út í kuldann hjá José Mourinho en annan leikinn í röð var Frakkinn varamaður í liði Manchester United í 4:1 sigri liðsins á móti Fulham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Old Trafford í dag.

Pogba kom inn á sem varamaður í 2:2 jafntefli gegn Arsenal á Old Trafford í vikunni en í dag var hann ónotaður varamaður.

„Hann verður að spila með sama hugarfari og liðið,“ sagði Mourinho eftir sigur sinna manna í dag sem var sá fyrstu hjá liðinu í deildinni í rúman einn mánuð.

„Paul er frábær leikmaður og hefur alla burði til að ná lengra. Hann mun byrja inni á í leiknum á móti Valencia á miðvikudaginn og þar getur hann sýnt hversu góður hann er,“ sagði Mourinho.

United sækir Valencia heim í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar á miðvikudagskvöldið. Manchester-liðið er komið áfram í 16-liða úrslitin og mun Mourinho líklega hvíla marga af lykilmönnum sínum en um næstu helgi heimsækir United erkifjendur sína í Liverpool í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert