Fjölmiðlar kynda undir rasisma

Raheem Sterling
Raheem Sterling AFP

Fjölmiðlar kynda undir kynþáttafordóma með þeirri mynd sem þeir draga upp af ungum, svörtum knattspyrnumönnum ef marka má orð Raheem Sterling, framherja Manchester City í ensku úrvalsdeildinni.

Sterling varð fyrir barðinu á kynþáttahatri af hendi áhorfenda í 2:0-tapi City gegn Chelsea í Lundúnum í dag en eftir leik beindi hann spjótum sínum að fjölmiðlum. „Ég er ekki vanur að tjá mig mikið en tel þess nú þörf. Eins og þið sáuð voru viðbrögð mín við því sem var sagt á Chelsea leiknum í gær að hlæja, enda býst ég ekki við neinu betra,“ skrifaði framherjinn á Instagram.

Sýndarmennska eða hús undir mömmu?

Hann bar svo saman umfjöllun enskra fjölmiðla um tvo liðsfélaga sína, þá Tosin Adarabioyo og Phil Foden sem keyptu sér nýlega fasteign. Adarabioyo er 21 árs varnarmaður og í umfjöllun fjölmiðla er talað um hvernig hann hafi verið að „strá um sig með peningum og keypt sér rándýrt stórhýsi án þess að hafa svo mikið sem byrjað leik í efstu deild.“

Til samanburðar keypti hinn 18 ára Phil Foden sér sambærilega dýrt hús nýlega og var umfjöllun enskra miðla á þá vegu að þessi ungi og efnilegi knattspyrnumaður hefði „keypt hús handa mömmu og væri að fjárfesta í framtíðinni.“

„Þú ert með tvo unga leikmenn sem eru að hefja ferilinn sinn. Báðir spila fyrir sama liðið, báðir hafa gert hið rétta sem er að kaupa hús fyrir mæður sínar sem hafa alið þá upp, en sjáið hvernig fjölmiðlar koma þessum skilaboðum áleiðis, fyrir unga hvíta strákinn og svo fyrir unga svarta strákinn“ skrifaði Sterling.

„Þetta er óásættanlegt, þetta orðalag kyndir undir rasisma og herskáa hegðun.“

Tosin Adarabioyo og Phil Foden.
Tosin Adarabioyo og Phil Foden. Ljósmynd/Manchester City
mbl.is