Chelsea setur fjóra í bann fyrir rasisma

Raheem Sterling er hér á miðri mynd að verjast í …
Raheem Sterling er hér á miðri mynd að verjast í leiknum gegn Chelsea um helgina. AFP

Enska knattspyrnufélagið Chelsea sendi frá sér yfirlýsingu nú síðdegis þar sem fram kom að fjórum einstaklingum hafi verið bannað að sækja heimaleiki liðsins vegna ásakana um kynþáttafordóma.

Raheem Sterling, leikmaður Manchester City, varð fyrir fordómum í leik liðanna í úrvalsdeildinni um helgina þar sem Chelsea fór með 2:0 sigur af hólmi. Chelsea hefur hafið rannsókn á atvikinu innanhúss og þar til þeirri rannsókn er lokið verður þeim fjórum einstaklingum sem grunaðir eru um verknaðinn bannað að mæta á Stamford Bridge, og hugsanlega til frambúðar.

„Chelsea er á móti allri mismunun og ef rannsókn leiðir í ljós að miðahafar hafi tekið þátt í slíku mun félagið taka hart á því, meðal annars með bönnum. Við munum einnig styðja við lögregluaðgerðir vegna gruns um refsiverða háttsemi,“ segir meðal annars í yfirlýsingu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert