Gylfi klúðraði víti en Everton slapp í blálokin

Gylfi Þór Sigurðsson með boltann en Domingos Quinaduring sækir að …
Gylfi Þór Sigurðsson með boltann en Domingos Quinaduring sækir að honum í leiknum í kvöld. AFP

Everton slapp heldur betur með skrekkinn eftir mark í uppbótartíma þegar liðið fékk Watford í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Everton jafnaði metin í 2:2, en í stöðunni 2:1 fyrir Watford brenndi Gylfi af vítaspyrnu fyrir Everton.

Richarlison kom Everton yfir á 15. mínútu gegn sínu gamla liði, en með því fetaði hann í fótspor Dalvíkingsins Heiðars Helgusonar eins og mbl.is greindi frá í kvöld. Markið gaf Everton 1:0 forskot í hálfleik.

Leikurinn gjörbreyttist hins vegar á þriggja mínútna kafla eftir hlé. Á 63. mínútu átti Roberto Pereyra í liði Watford skot í stöngina, þaðan hrökk boltinn í Seamus Coleman í vörn Everton og fór í netið. Sjálfsmark og staðan 1:1.

Aðeins tveimur mínútum síðar, á þeirri 65., voru leikmenn Watford búnir að fullkomna viðsnúninginn þegar Abdoulaye Doucouré kom þeim yfir. Hann kom þá á ferðinni inn á teig, varnarmönnum Everton að óvörum, og stangaði boltann í netið. Bæði mörkin komu eftir fyrirgjöf frá hægri.

Fjörinu var á þessum tímapunkti þó langt frá því að vera lokið, en á 67. mínútu fékk Everton vítaspyrnu eftir brot innan teigs. Gylfi Þór Sigurðsson stillti boltanum upp og tók spyrnuna beint á markið, en Ben Foster í marki Watford varði frá honum. Önnur vítaspyrnan sem Gylfi klúðrar í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Watford virtist ætla að hanga á sigrinum, en þegar langt var liðið á uppbótartímann fékk Everton aukaspyrnu rétt utan teigs. Gylfi stóð yfir boltanum en það var hins vegar Lucas Digne sem tók spyrnuna, skrúfaði boltann yfir vegginn og í hornið. Lokatölur 2:2 og mikil dramatík.

Everton situr enn í sjöunda sætinu eftir þessi úrslit, nú með 24 stig og er tveimur á eftir Manchester United. Watford hefði getað jafnað Everton að stigum með sigri en situr í 12. sæti með 21 stig.

Everton 2:2 Watford opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti sex mínútur í uppbótartíma. Nóg eftir fyrir Everton.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert