Hlýtur að vera persónulegt

Aymeric Laporte fagnar marki með Manchester City.
Aymeric Laporte fagnar marki með Manchester City. AFP

Fáir geta mælt því mót að franski miðvörðurinn Aymeric Laporte sé einn besti varnarmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni en þessi 24 ára gamli leikmaður Manchester City hefur samt enn ekki fengið tækifæri með franska landsliðinu.

Laporte hefur spilað fjölmarga leiki með yngri landsliðum Frakka en Didier Dechamps, þjálfari franska landsliðsins, hefur litið fram hjá honum.

Laporte var spurður af frönskum íþróttafréttamanni út í endurtekna fjarveru hans í franska landsliðshópnum.

„Þessi spurning hefur aðeins eitt svar; það er þjálfari sem hefur ekki valið mig svo ég þarf að bíða og halda áfram að vinna. Ég held að þetta sé ekki íþróttalegs eðlis en þú verður að spyrja hann. Ég hef ekkert á móti honum persónulega en ef einhver er með vandamál þá er það hann en ekki ég.

Ég hefði getað orðið heimsmeistari en það er ákvörðun þjálfarans að velja mig ekki. Ég held að þetta hljóti að vera eitthvað persónulegt en ég verð að virða ákvörðun hans,“ sagði Loporte í viðtalinu.

mbl.is