Gylfi og Aron fengu vonda dóma

Gylfi í baráttu við Fernandinho í dag.
Gylfi í baráttu við Fernandinho í dag. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson fengu ekki góða dóma fyrir frammistöðu sína í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Gylfi fór útaf á 81. mínútu í 3:1 tapi Everton gegn Manchester City á Ethiad vellinum í Manchester. Gylfi fékk 5 í einkunn hjá Sky Sports og sömuleiðis hjá staðarblaðinu Liverpool Echo sem sagði í umsögn sinni um Gylfa að þetta hafi rólegur leikur hjá honum og ekki hafi komið neinum á óvart þegar hann var tekinn af velli.

Aron Einar lék í 77 mínútur með Cardiff í 3:2 tapi gegn Watford á útivelli. Aron Einar fékk 5 í einkunn hjá netmiðlinum WalesOnline en í umsögn miðilsins um landsliðsfyrirliðann segir að þetta hafi verið hans lélegasti leikur með Cardiff eftir að hann sneri til baka eftir meiðsli.

mbl.is