Jón Daði sneri aftur

Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson.

Jón Daði Böðvarsson lék sinn fyrsta leik fyrir Reading í tæpa tvo mánuði er hann kom inn á sem varamaður á 79. mínútu í útileik gegn Rotherham í dag. Staðan var 1:0, Reading í vil þegar Jón Daði kom inn á, en hann gat ekki komið í veg fyrir jöfnunarmark í lokin.

Selfyssingurinn er búinn að skora sjö mörk í sjö leikjum í byrjunarliði á leiktíðinni, en liðinu hefur ekki gengið sérlega vel. Eftir leikinn er Reading með 19 stig í 21. sæti, eins og Millwall sem er í sætinu fyrir neðan. Reading er ekki búið að vinna í sex leikjum í röð, tapað tveimur og gert fjögur jafntefli. 

Birkir Bjarnason lék ekki með Aston Villa í 2:2-jafntefli við Stoke á heimavelli. Birkir er enn að glíma við meiðsli, en hann ætti að snúa aftur inn á völlinn fljótlega. Aston Villa er í áttunda sæti með 33 stig. 

Leeds United skaust á toppinn með 1:0-útisigri á Bolton. Patrick Bamford skoraði sigurmarkið í síðari hálfleik með sínu fyrsta deildarmarki fyrir Leeds. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert