Hvers vegna létu þeir lærling dæma?

Neil Warnock.
Neil Warnock. AFP

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff, kallaði dómarann Andy Madley „lærling“ eftir viðureign hans manna við Watford í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Madley dæmdi sinn fyrsta úrvalsdeildarleik á tímabilinu en hafði í marsmánuði dæmt sinn fyrsta og eina leik í deildinni fram að því. Hinn þrautreyndi Andre Marriner var hinsvegar fjórði dómari leiksins.

Warnock sagðist eftir leikinn ekki skilja hvernig Troy Deeney hefði sloppið við gult spjald eftir „hræðilega tæklingu“ í leiknum.

„Ég skil ekki hversvegna þeir létu Andre Marriner vera fjórða dómara og dómara sem ekki hafði dæmt allt tímabilið stjórna leiknum. Nema kannski að það megi vegna þess að við erum Cardiff og þá er allt í lagi að senda lærling á leikinn," sagði Warnock við BBC.

„Troy átti að fá spjald og ég skil ekki hversvegna okkar lið þurfi að vera þátttakandi í einhverjum tilraunum. Vorkenna þeir okkur eða erum við ekki nógu mikilvægir. Það þarf enginn að segja mér að Marriner hefði sýnt Deeney spjald, í einhverjum lit. Þetta var hræðileg tækling. Við hópumst ekki að dómurum til að reyna að hafa áhrif á þá en ég verð alltaf æfur þegar ég sé önnur lið komast upp með slíka hluti," sagði Warnock.

Watford vann leikinn 3:2 en Cardiff skoraði tvö mörk seint í leiknum og hleypti mikilli spennu í lokamínúturnar, en þá hafði Warnock tekið Aron Einar Gunnarsson af velli og sett framherja inná í staðinn.

mbl.is