Langt frá síðasta Liverpool-sigri

José Mourinho og Jürgen Klopp mætast með sín lið á ...
José Mourinho og Jürgen Klopp mætast með sín lið á Anfield í dag. AFP

Manchester United mætir á Anfield í dag með þá staðreynd í farteskinu að þrátt fyrir slæmt gengi að undanförnu hefur liðið ekki tapað í síðustu átta leikjum gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Erkifjendurnir mætast á Anfield klukkan 16 í síðasta leik 17. umferðar. Liverpool er með 42 stig og er eina liðið í efstu fimm deildum Englands sem hefur ekki tapað leik á tímabilinu. Með sigri færi liðið á ný upp fyrir Manchester City sem er með 44 stig eftir sigur á Everton í gær.

Manchester United er hins vegar sextán stigum neðar í sjötta sætinu með 26 stig en liðið hefur aðeins unnið sjö af fyrstu 16 leikjum sínum í deildinni.

Liverpool og United hafa gert markalaus jafntefli á Anfield á tveimur síðustu tímabilum en þar á undan vann United tvo leiki þar í röð. Á meðan hefur United unnið þrjá leiki og liðin hafa gert eitt jafntefli í deildaleikjum sínum á Old Trafford. Síðustu sigrar Liverpool á United komu tímabilið 2013-14 þegar Liverpool vann 1:0 á Anfield og 3:0 á Old Trafford.

mbl.is