Liverpool vann bug á United-grýlunni

Leikmenn Liverpool fagna marki Sadio Mané á Anfield í dag.
Leikmenn Liverpool fagna marki Sadio Mané á Anfield í dag. AFP

Liverpool lagði Manchester United að velli, 3:1, á Anfield í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Liverpool skellti sér þar með aftur á toppinn og er nú 19 stigum fyrir ofan erkifjendur sína í United. Var þetta fyrsti sigur Liverpool í þessum grannaslag síðan 2013 en United hafði unnið fimm af síðustu átta og liðin gert þrisvar jafntefli á þessum árum.

Það var Sadio Mané sem kom Liverpool yfir eftir 24. mínútur eftir frábæra sendingu frá Fabinho en heimamenn léku á als oddi fyrsta hálftíma leiksins. Svo gerðist Alisson Becker sekur um herfileg mistök í marki Liverpool er hann missti máttlausa fyrirgjöf Romelu Lukaku fyrir fætur Jesse Lingard sem þakkað fyrir sig og jafnaði metin fyrir United en þannig stóðu leikar í hálfleik.

Liverpool hélt áfram að ráða lögum og lofum í síðari hálfleik en náði þó fyrst um sinn ekki að endurheimta forystu sína. Það breyttist þegar Svisslendingurinn Xherdan Shaqiri kom inn á 70. mínútu. Hann skoraði þremur mínútum síðar er fast skot hans innan teigs hrökk af Ashley Young og þaðan í þverslá og inn. Á 80. mínútu innsiglaði hann svo sigurinn með þegar skot hans utan teigs fór af Eric Bailly og þaðan yfir David de Gea í marki United.

Liverpool endurheimtir því toppsætið af Manchester City og er nú með 45 stig eftir 17 leiki. United er sem fyrr í 6. sætinu með 26 stig, 19 stigum á eftir nágrönnum sínum.

Liverpool 3:1 Man. Utd opna loka
90. mín. Leik lokið Liverpool nælir í sinn fyrsta sigur á United síðan 2013 og endurheimtir toppsætið af City.
mbl.is