Southampton stöðvaði Arsenal

Danny Ings (t.h.) fagnar einu marka sinna gegn Arsenal í …
Danny Ings (t.h.) fagnar einu marka sinna gegn Arsenal í dag. AFP

Southampton batt enda á taphrinu sína og stöðvaði jafnframt glæsilega sigurgöngu Arsenal með 3:2-sigri í einvígi liðanna á St Mary's-vellinum í Southampton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Þá vann Chelsea 2:1-sigur á Brighton.

Arsenal hafði ekki tapað í síðustu 22 leikjum sínum og Soumthapton ekki unnið deildarleik síðan 1. september en það breyttist allt í mögnuðum fótboltaleik. Danny Ings kom heimamönnum yfir á 20. mínútu með skalla áður en Armeninn Henrikh Mkhitaryan jafnaði metin átta mínútum síðar. Ings kom Southampton aftur yfir rétt fyrir hálfleik áður en Mkhitaryan jafnaði metin aftur snemma í síðari hálfleik.

Sóknarmaðurinn Charlie Austin átti svo lokaorðið er hann skoraði sigurmark Southampton á 85. mínútu við gríðarlegan fögnuð heimamanna undir stjórn Ralph Hasenhüttl sem tók við liðinu fyrr í mánuðinum. Með sigrinum lyftir Southampton sér upp úr fallsæti en liðið er nú í 17. sæti með 12 stig. Arsenal er áfram í 5. sæti með 32 stig.

Chelsea heimsótti Brighton og vann 2:1-sigur þökk sé afbragðs fyrri hálfleik þar sem Pedro og Eden Hazard sáu um mörkin. Fyrst skoraði Pedro á 17. mínútu eftir laglegan undirbúning Hazard og Belginn kom sér svo sjálfur á blað eftir rúman hálftíma er hann slapp einn gegn Matthew Ryan í marki Brighton eftir varnarmistök.

Það var allt annað að sjá til heimamanna í síðari hálfleik og minnkuðu þeir muninn á 66. mínútu með marki Solly March. Þeir reyndu svo allt hvað þeir gátu til að kreista fram jöfnunarmark en allt kom fyrir ekki og tókst Chelsea að skella sér í 37 stig en liðið er í 4. sæti. Brighton er áfram í 13. sætinu með 21 stig.

Hazard (númer 10) skorar hér mark sitt gegn Brighton í …
Hazard (númer 10) skorar hér mark sitt gegn Brighton í dag. AFP
Brighton 1:2 Chelsea opna loka
90. mín. Kepa Arrizabalaga (Chelsea) fær gult spjald Gult fyrir að tefja eftir að hornspyrna heimamanna endaði í markspyrnu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert