Yfirburðir Liverpool gegn Man. Utd í tölum

Liverpool var mun betri aðilinn gegn Manchester United.
Liverpool var mun betri aðilinn gegn Manchester United. AFP

Liverpool vann sanngjarnan 3:1-sigur á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Tölfræðin úr leiknum gefur til kynna algjöra yfirburði hjá Liverpool gegn erkifjendum sínum. 

Liverpool átti 36 skot að marki Manchester United í dag, en ekkert lið hefur átt eins mörg skot að marki andstæðings í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. Manchester City átti 32 skot gegn Huddersfield í ágúst. 

Ellefu skot Liverpool rötuðu á mark Manchester United. Manchester United átti alls sex skot og fóru tvö þeirra á markið. 

Liverpool var 64 prósent með boltann gegn aðeins 36 prósentum hjá Manchester United. Heimamenn í Liverpool fengu svo 13 hornspyrnur gegn aðeins tveimur hjá United. 

Heimamenn reyndu 562 sendingar í leiknum á móti 323 sendingum hjá United. 457, eða 81 prósent sendinga Liverpool rötuðu á samherja. Manchester United átti 211 heppnaðar sendingar eða 65 prósent. 

Liverpool átti 29 fyrirgjafir í leiknum á móti sjö hjá Manchester United. United hafði svo mun meira að gera í vörninni og átti alls 26 tæklingar gegn 12 hjá Liverpool. Leikmenn Manchester United áttu svo alls 38 hreinsanir gegn aðeins átta hjá Liverpool. 

mbl.is