Segir Pogba dansa á gröf Mourinho

Paul Pogba er ekki vinsæll hjá Gary Neville.
Paul Pogba er ekki vinsæll hjá Gary Neville. AFP

Gary Neville er ekki sáttur við Paul Pogba, leikmann Manchester United. Pogba setti færslu á Twitter-síðu sína örskömmu eftir að fréttir bárust af brottrekstri Jose Mourinho frá United. Á færslunni mátti sjá mynd af Pogba með áhugaverðan svip, líkt og hann væri sáttur við fréttirnar af Mourinho. 

Færslunni var eytt skömmu síðar og segja talsmenn Pogba hana ekki vera tengda Mourinho á neinn hátt. Fyrir löngu var búið að ákveða að færslan yrði gerð vegna samstarfs Pogba við íþróttavörurisann ADIDAS og að tímasetningin hafi verið tilviljun og óheppileg. Neville er ekki sáttur við þá afsökun, en hann lék allan ferilinn með Manchester United. 

„Pogba og Mourinho voru ekki sáttir við hvorn annan, það var alveg ljóst. Svo er þessi færsla gerð af Pogba og hans fólki og þeir segja að þetta sé tilvijun. Þessi afsökun er ekkert nema rusl og fólk á ekki að trúa henni," sagði Neville í þættum The Debate á Sky Sports sjónvarpsstöðinni. 

„Pogba vildi örugglega setja þetta í pressuna fyrr að honum líkaði illa við Mourinho. Í mínum bókum er hann að dansa á gröfinni hjá Mourinho, sem er nýbúið að reka og þetta er mjög óviðeigandi. Hann trúir ekki á Mourinho, honum líkar illa við hann og finnst hann ekki vera góður stjóri. 

Mourinho var ekki hrifinn af Pogba heldur og það er augljóst að þeir voru alls ekki sáttir við hvorn annan síðasta hálfa árið og jafnvel síðasta árið," sagði Neville ákveðinn. 

mbl.is