Mælirinn fylltist

Norðmaðurinn og Íslandsvinurinn Ole Gunnar Solskjær þótti líklegastur til að taka við starfi knattspyrnustjóra hjá Manchester United þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi.

Starfið losnaði í gær þegar José Mourinho var sagt upp og hann kvaddi leikmenn í gærmorgun á Carrington-æfingasvæðinu. Fyrir liggur að United ætlar að ráða stjóra mjög fljótlega til að stýra liðinu út þetta keppnistímabil. Sú ráðning verður tímabundin og ætla forráðamenn félagsins að vanda sig við að ráða stjóra til lengri tíma.

Í gærkvöldi voru fluttar af því fréttir að Solskjær væri í viðræðum við United og leikmenn liðsins búast við því að hann verði stjóri út tímabilið. Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, gekk svo langt að óska landa sínum til hamingju og sagði ráðninguna vera frábær tíðindi fyrir norska knattspyrnu. Solskjær er hins vegar knattspyrnustjóri Molde og félagið þarf því að komast að samkomulagi við United.

Fleiri en Solskjær voru nefndir til sögunnar sem líklegir þóttu til að stýra liðinu út tímabilið. Má þar nefna Frakkann Laurent Blanc sem lék um tíma með United og vann titla bæði sem stjóri Bordeaux og PSG. Annar Frakki, Zinedine Zidane, er laus eftir að hafa náð mögnuðum árangri hjá Real Madrid. Ýmsir telja að þeir gætu náð til landa sinna, Paul Pogba og Anthony Martial, sem báðir áttu í stormasömu sambandi við Mourinho. Michael Carrick, fyrrverandi leikmaður liðsins, stýrir æfingum til að byrja með en hann var í starfsliði Mourinho.

Ýmsar ástæður fyrir uppsögn

Margir samverkandi þættir virðast hafa orðið þess valdandi að stjórn Manchester United tók þá ákvörðun að láta Jose Mourinho fara á þessum tímapunkti. Árangur er yfirleitt viðmiðið í íþróttum og United er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Er liðið nítján stigum á eftir efsta liðinu þótt einungis séu búnar sautján umferðir. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir harðsoðna fylgjendur United gengur erkifjendunum í Manchester City og Liverpool flest í haginn á sama tíma. Fjárhagslegir hagsmunir vega æ þyngra í knattspyrnuheiminum. Skiptir það máli í þessu samhengi því möguleikar United á því að halda sæti sínu í Meistaradeild Evrópu á næsta ári eru að verða fjarlægir. Liðið er 11 stigum á eftir Chelsea sem er í 4. sæti.

Ofan á þetta bætist að stuðningsmönnum liðsins þykir ekki spennandi eða eftirsóknarvert að fylgjast með liðinu spila á þessu keppnistímabili frekar en á því síðasta. Þegar United vann mikilvægan sigur á Young Boys í Meistaradeildinni á dögunum voru víða auð sæti á Old Trafford.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

José Mourinho hefur lokið störfum fyrir Manchester United.
José Mourinho hefur lokið störfum fyrir Manchester United. AFP
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »