Ræddi fyrst við leikmenn

José Mourinho var rekinn frá Manchester United í gær.
José Mourinho var rekinn frá Manchester United í gær. AFP

Ed Woodward stjórnarformaður Manchester United er sagður hafa rætt við leikmenn liðsins áður en sú ákvörðun var tekin að reka knattspyrnustjórann José Mourinho úr starfi í gær.

Tapleikurinn á móti Liverpool þar sem United-liðið átti hræðilegan leik var kornið sem fyllti mælinn hjá stjórn Manchester United sem ákvað að reka Mourinho en hann hafði verið við stjórnvölinn hjá félaginu í tvö og hálft ár.

Fyrir æfingu Manchester-liðsins í gærmorgun átti Woodward fund með Mourinho og tilkynnti honum að dagar hans hjá félaginu væru taldir.

Enska blaðið Mirror greinir frá því að Woodward ræddi við leikmenn Manchester United á mánudaginn þar sem hann vildi fá að vita tilfinningu leikmanna í búningsklefanum eftir tapið á móti Liverpool. Meirihluti leikmanna liðsins á að hafa sagt að liðið væri ekki að sýna neinar framfarir undir stjórn Mourinho en Romelu Lukaku og Nemanja Matic eru sagðir hafa staðið með stjóra sínum.

mbl.is