Solskjær tekinn við United

Ole Gunnar Solskjær er orðinn knattspyrnustjóri Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær er orðinn knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær er tekinn við stjórastarfinu hjá Manchester United af José Mourinho og mun stýra liðinu út þessa leiktíð en vefur Manchester United greindi frá þessu nú rétt í þessu.

Solskjær kom fyrst til Manchester United árið 1996 sem leikmaður og var mjög vin­sæll á meðal stuðnings­manna fé­lags­ins og er í guða tölu hjá mörgum þeirra eftir að hann skoraði sigurmark United gegn Bayern München í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 1999. Hann þjálfaði svo um tíma varalið fé­lags­ins og þekk­ir hann því afar vel til þess. Solskjær skoraði 126 mörk í 366 leikjum með Manchester United á árunum 1996-2007.

Með Solskjær í þjálfarateyminu verða Mike Phelan, fyrrverandi aðstoðarstjóri United, Michael Carrick og Kieran McKenna.

„Manchester United er í hjarta mínu og það er frábært að koma aftur til félagsins. Ég hlakka til að vinna með hæfileikaríkum leikmönnum, starfsmönnum og öllum hjá félaginu,“ segir Solskjær á vef Manchester United.

Solskjær er núverandi þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Molde og framlengdi á dögunum samning sinn við félagið. Hann var knattspyrnustjóri Cardiff árið 2014 og lék landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson undir hans stjórn.

Solskjær tók við stjórastarfinu hjá Cardiff í janúar 2014. Liðið var þá í úrvalsdeildinni en endaði í 20. sæti og féll úr deildinni. Liðið fór illa af stað í B-deildinni undir stjórn Norðmannsins og hann var rekinn frá störfum í september 2014. Solskjær hefur verið við stjórnvölinn hjá Molde frá árinu 2015 og hafnaði liðið í öðru sæti í norsku úrvalsdeildinni í ár.

Fyrsti leikur Manchester United undir stjórn Solskjærs verður einmitt á móti Cardiff en liðin eigast við í ensku úrvalsdeildinni í Cardiff á laugardaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina