Tækifæri sem ég varð að taka

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP

Ole Gunnar Solskjær er þakklátur Molde fyrir að leyfa sér að taka við stjórastarfinu hjá Manchester United út tímabilið en Molde komst að samkomulagi við United um að lána þjálfara sinn.

Solskjær framlengdi á dögunum samning sinn við norska úrvalsdeildarliðið og er samningsbundinn því til ársins 2021.

„Í fótbolta veistu aldrei hvað getur gerst. Þetta er tækifæri sem ég varð að taka. Ég hlakka til að taka við liði Manchester United fram á sumar. Á sama tíma mun ég fylgjast náið með því hvað er að gerast heima. Við höfum byggt stein fyrir stein og lokin á tímabilinu í ár gefa okkur vonir um fyrir annað gott tímabil,“ segir Solskjær á vef Molde en Erling Moe mun taka við liði Molde á meðan Solskjær sinnir starfi sínu hjá Manchester United.

Ole Gunnar stýrir liði Manchester United í fyrsta sinn á laugardaginn en þá sækir United lið Cardiff heim í ensku úrvalsdeildinni en Ole Gunnar stýrði velska liðinu frá janúar til september 2014.

mbl.is