Verður hann stjóri til framtíðar?

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP

Norski markaskorarinn með hið huggulega gælunafn „morðinginn með barnsandlitið“ er kominn aftur á Old Trafford eftir sjö ára fjarveru.

Í gærmorgun tilkynnti Manchester United að Ole Gunnar Solskjær hefði verið ráðinn knattspyrnustjóri félagsins til bráðabirgða, nánar tiltekið til næsta vors. Þá á að liggja fyrir hver fær það hlutverk að stýra félaginu næstu árin.

Solskjær kemur til síns gamla félags sem „lánsmaður“. Hann er samningsbundinn norska félaginu Molde til ársins 2021 en þar hefur hann verið við stjórnvölinn frá október 2015. Solskjær stýrði áður Molde á árunum 2011 til 2014, eftir að dvöl hans á Englandi lauk. Molde varð norskur meistari undir hans stjórn árin 2011 og 2012 og bikarmeistari 2013. Hann hefur hins vegar ekki unnið titil með liðinu eftir endurkomuna, en Molde hafnaði í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar, á eftir Rosenborg, á nýliðnu tímabili.

Sem leikmaður skoraði Solskjær 31 mark í 38 leikjum fyrir Molde í norsku úrvalsdeildinni, áður en Manchester United keypti hann þaðan fyrir hálfa aðra milljón punda.

Marksækinn varamaður

Kaupin á Solskjær voru félaginu heilladrjúg. Á ellefu árum skoraði hann 91 mark í 235 úrvalsdeildarleikjum fyrir United, gerði samtals 126 mörk í 366 mótsleikjum, og var þó oftar en ekki geymdur á varamannabekknum þar til í síðari hálfleik. Solskjær var einkar laginn við að koma inn á og skora mörk og auk viðurnefnisins sem áður var getið var hann sannkallaður„super-sub“, þ.e. varamaður sem gjarn er á að skora mörk.

Hans stærsta stund var eflaust þegar hann skoraði sigurmarkið gegn Bayern München í úrslitaleik Meistaradeildarinnar vorið 1999. Manchester United var 0:1 undir þegar uppbótartíminn var að hefjast en vann 2:1.

Solskjær hefur þegar reynt fyrir sér sem þjálfari og stjóri á enskri grundu. Eftir að hann lagði skóna á hilluna árið 2007 vegna þrálátra meiðsla, 34 ára gamall, þjálfaði hann varalið Manchester United til 2011 þegar hann fór til Molde.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert