„Þetta var þér að kenna“

Shaqiri fagnar marki gegn Manchester United um síðustu helgi.
Shaqiri fagnar marki gegn Manchester United um síðustu helgi. AFP

Xherdan Shaqiri leikmaður Liverpool segir að nokkrir vinir hans kenni honum um að Manchester United hafi ákveðið að reka knattspyrnustjórann José Mourinho úr starfi.

Mourinho fékk reisupassann hjá Manchester United á þriðjudaginn, tveimur dögum eftir 3:1 tap liðsins á móti Liverpool. Í þeim leik kom Shaqiri inná í seinni hálfleik og skoraði tvö síðustu mörk leiksins.

„Ég fékk mörg skilaboð frá vinum mínum. Það voru mörg góð skilaboð um United leikinn í fyrstu en þegar fréttirnar bárust um Mourinho þá fékk ég skilaboð sem í stóð; „Þetta var þér að kenna.“ En svona er fótboltinn stundum. Ég held að þetta hafi ekki bara verið af því við unnum leikinn að United ákvað að skipta um stjóra. Það voru aðrar ástæður en þetta þýðir að leikurinn fer í sögubækur og þetta verður alltaf í minni sögu líka,“ segir Shaqiri í viðtali við enska fjölmiðla.

Shaqiri og félagar hans í Liverpool-liðinu verða í eldlínunni í kvöld en þá sækja þeir Wolves heim og geta náð fjögurra stiga forskoti í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert