Frábært að vera á hæsta stigi

Grétar Rafn Steinsson
Grétar Rafn Steinsson mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er auðvitað gífurlega stór klúbbur, ekki bara á Englandi heldur í raun í heiminum, sem ætlar sér stóra hluti í framtíðinni. Þetta er stórt tækifæri,“ segir Grétar Rafn Steinsson, nýr starfsmaður Everton, í samtali við Morgunblaðið.

Grétar, sem er 36 ára gamall, var á dögunum ráðinn yfirnjósnari Everton í Evrópu, en segir að raunar nái starf hans út fyrir álfuna og hann leiti hæfileikaríkra knattspyrnumanna úti um allan heim, í samvinnu við þá fjölmörgu njósnara sem enska úrvalsdeildarfélagið eigi. Með starfi sínu nú og áður hjá Fleetwood Town rætist enn annar draumur stráks frá Siglufirði sem bjó sig undir að eiga langan atvinnumannsferil í Englandi, Sviss, Hollandi og Tyrklandi, og leika 46 A-landsleiki.

„Ég sá alltaf að þetta væri starf sem ég hefði áhuga á. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á öllu sem tengist fótbolta, hvort sem það er þjálfun, næringarfræði, leikmenn eða hvað annað. Ég er gífurlega vel að mér um íslenska boltann með því að hafa lesið Íslensk knattspyrna-bækurnar sem ég á allar, og það var alltaf stefnan hjá mér að vinna við fótbolta með einum eða öðrum hætti. Það er frábært að fá að vinna núna við þetta á hæsta stigi, og vita hvernig það besta lítur út í öllu sem tengist fótboltanum,“ segir Grétar.

Mikil þróun hjá Fleetwood

Eftir að Grétar lagði skóna á hilluna vegna meiðsla, aðeins 31 árs gamall haustið 2013, var hann sem sagt strax viss um að vilja starfa áfram við fótboltann. Síðustu fjögur ár hefur hann starfað sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Fleetwood Town, sem leikur í ensku C-deildinni, og þó að starfið hjá Everton sé af annarri stærðargráðu þá býr Grétar að góðri reynslu frá því:

„Það þurfti eitthvað virkilega spennandi til að ég færi frá Fleetwood þar sem ég var á fimm ára samningi, í þeirri stöðu að geta gert félagið nánast eins og ég vildi hafa það. Ég var búinn að taka félagið frá því að vera með þrjá starfsmenn í akademíunni og fimm í aðalliðinu, upp í að vera með yfir 60 starfsmenn í heildina, með akademíu frá 9 ára aldri og tíu akademíur frá 6 ára aldri. Það þurfti eitthvað virkilega spennandi til að ég labbaði í burtu frá þessu, og félag að vera tilbúið að kaupa upp samninginn minn,“ segir Grétar.

Sjá allt viðtalið við Grétar Rafn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert