Úrslitaleikur strax í byrjun janúar?

Jürgen Klopp og Pep Guardiola.
Jürgen Klopp og Pep Guardiola. AFP

Þótt fullsnemmt sé að tala um úrslitaleik í byrjun janúar fer ekki á milli mála að viðureign Manchester City og Liverpool á Etihad-leikvanginum í kvöld hefur gríðarlega mikla þýðingu í baráttunni um enska meistaratitilinn í knattspyrnu í ár.

Liverpool mætir ósigrað til leiks og þótt félagið hafi átján sinnum orðið enskur meistari hefur það aldrei í 126 ára sögu sinni verið í jafngóðri stöðu að 20 umferðum loknum. Jürgen Klopp og lærisveinar hans eru komnir með 54 stig af 60 mögulegum, hafa unnið sautján leiki og gert þrjú jafntefli.

Þá hefur nýi markvörðurinn Alisson Becker aðeins fengið á sig átta mörk í 20 leikjum og í þeirri tölfræði endurspeglast líklega best munurinn á Liverpool í vetur og mörg undanfarin tímabil. Óhætt er að segja að þeir Alisson og hollenski miðvörðurinn Virgil van Dijk hafi gjörbreytt ásýnd Liverpool-liðsins því köflóttur varnarleikur og markvarsla hefur helst komið því í koll á síðari árum.

Stærsta prófraunin

En nú bíður Klopps og hans manna stærsta prófraunin til þessa á yfirstandandi tímabili. Manchester City er ríkjandi Englandsmeistari og vann deildina í fyrra með gríðarlegum yfirburðum þegar liðið náði bæði 100 stigum og 100 mörkum, sem er einstakur árangur, ásamt því að vinna fleiri leiki og vera með betri markatölu en nokkurt annað lið í sögu deildarinnar. Í vetur er liðið „aðeins“ með 47 stig eftir 20 leiki og þarf því að vinna síðustu átján leikina til að jafna eða bæta afrek síðasta tímabils. City er sem stendur í þriðja sæti, stigi á eftir Tottenham sem vann Cardiff 3:0 á nýársdag. Eftir tvo óvænta ósigra um jólin, gegn Crystal Palace og Leicester, er ljóst að Pep Guardiola og hans menn sætta sig ekki við neitt annað en sigur í kvöld.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert