Solskjær boðar breytingar

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United sagði á fréttamannafundi í dag að hann muni gera breytingar á liði sínu í leiknum gegn Jóni Daða Böðvarssyni og félögum hans í Reading en liðin eigast við í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu á Old Trafford á morgun.

„Það verða einhverjar breytingar þar sem leikmenn fá tækifæri. Leikmenn eins og Lukaku og Sánchez þurfa á leikjum að halda,“ sagði Solskjær.

Marcos Rojo og Chris Smalling eru enn frá vegna meiðsla og þá er óvíst hvort Paul Pogba geti spilað en hann fékk högg á lærið í leiknum gegn Newcastle í fyrrakvöld.

Solskjær varð í tvígang bikarmeistari með Manchester United.

„Það er frábært að spila bikarúrslitaleiki og ég spilaði á Wembley árið 1999. Ég ólst upp við að horfa á úrslitaleiki í bikarnum og við vonumst til að komast í úrslitaleikinn í ár og vinna titilinn,“ sagði Solskjær sem hefur farið frábærlega af stað sem stjóri Manchester-liðsins eftir að hann var ráðinn til að gegna starfinu út leiktíðina. Undir hans stjórn hefur United unnið alla fjóra leiki sína.

mbl.is