Barcelona reynir aftur við Willian

Willian í leik með Chelsea.
Willian í leik með Chelsea. AFP

Sky Sports greinir frá því í kvöld að Barcelona vilji frá Brasilíumanninn Willian til liðs við sig og sé reiðubúið að láta Chelsea fá brasilíska sóknarmanninn Malcom í staðinn.

Börsungar reyndu ítrekað að fá Willian til liðs við sig fyrir tímabilið. Það sendi Chelsea þrjú tilboð og hljóðaði það síðasta upp á 55 milljónir punda en forráðamenn Lundúnaliðsins höfnuðu þeim.

Í staðinn keypti Barcelona Malcom frá franska liðinu Bordeaux og greiddi fyrir hann 38 milljónir punda. Malcom, sem er 21 árs gamall, hefur komið við sögu í 5 leikjum með Barcelona í deildinni en hefur ekki náð að skora í þeim.

Willian, sem er 30 ára gamall, er samningsbundinn Chelsea fram á sumar 2020.

mbl.is