Fabregas farinn til Mónakó

Cesc Fabregas.
Cesc Fabregas. AFP

Bæði Chelsea og Mónakó staðfestu fyrir stundu að samningar hefðu tekist um kaup síðarnefnda félagsins á spænska miðjumanninum Cesc Fabregas, sem þar með fer strax til furstadæmisins og leikur með Mónakó í frönsku 1. deildinni.

Viðræður um félagaskipti hans hafa staðið í nokkurn tíma en Fabregas hefur leikið í hálft fimmta ár með Chelsea og þar á undan með Barcelona og Arsenal.

Fabregas, sem er 31 árs, hefur leikið 350 leiki í ensku úrvalsdeildinni og skorað í þeim 50 mörk og þá á hann að baki 110 landsleiki fyrir Spán.

mbl.is