Eykur Liverpool forskotið á ný?

Jordan Henderson og félagar í Liverpool heimsækja Brighton í dag …
Jordan Henderson og félagar í Liverpool heimsækja Brighton í dag en Sergio Agüero og Manchester City eiga frí til mánudags. AFP

Liverpool fær tækifæri til að ná sjö stiga forskoti á nýjan leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en leiknir verða sjö leikir í 22. umferð deildarinnar.

Liverpool heimsækir Brighton og er með 54 stig gegn 50 stigum hjá Manchester City og 48 hjá Tottenham. City spilar ekki fyrr en á mánudagskvöld, gegn Wolves, og Tottenham mætir Manchester United á morgun.

Jürgen Klopp og hans menn hafa tapað  báðum leikjum sínum á árinu 2019 eftir mikla sigurgöngu á síðustu vikum ársins 2018. Þeir biðu lægri hlut fyrir Manchester City í stórleiknum 3. janúar og voru slegnir út úr bikarnum af Wolves fjórum dögum síðar.

Brighton, sem er í 13. sæti, er afar erfitt heim að sækja og hefur aðeins tapað einum af síðustu sjö heimaleikjum sínum í deildinni.

Íslendingaliðin Burnley og Cardiff spila gríðarlega þýðingarmikla fallbaráttuleiki í dag þegar Burnley verður á heimavelli á móti Fulham og Cardiff á móti Huddersfield. Þarna mætast innbyrðis fjögur af fimm neðstu liðunum en Burnley og Cardiff eru með 18 stig, Southampton 16, Fulham 14 og Huddersfield 10. Lið Jóhanns Bergs Guðmundssonar og Arons Einars Gunnarssonar fá því tækifæri til að spyrna sér rækilega frá botninum.

Leikir dagsins:

12.30 West Ham - Arsenal
15.00 Brighton - Liverpool
15.00 Burnley - Fulham
15.00 Cardiff - Huddersfield
15.00 Crystal Palace - Watford
15.00 Leicester - Southampton
17.30 Chelsea - Newcastle

mbl.is