Southgate á leið til Manchester?

Gareth Southgate landsliðsþjálfari.
Gareth Southgate landsliðsþjálfari. AFP

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, gæti orðið næsti knattspyrnustjóri Manchester United og tekið við af Ole Gunnar Solskjær í sumar.

Sky Sports kveðst hafa heimildir fyrir þessu og segir að United hafi ekki haft formlega samband við enska knattspyrnusambandið enn sem komið er en þyki vænlegur kostur vegna þeirra hæfileika sem hann hafi sýnt í starfi sínu með enska landsliðið, sérstaklega hvað varðar vinnu með unga leikmenn.

Undir stjórn Southgate komst enska landsliðið í undanúrslit HM í sumar og það er komið í undanúrslit Þjóðadeildar UEFA. Hann framlengdi samning sinn við enska knattspyrnusambandið til ársins 2022 í október.

Solskjær tók við United til bráðabirgða 19. desember eftir að José Mourinho var rekinn og liðið hefur unnið fyrstu fimm leiki sína í deild og bikar undir hans stjórn.

Sky Sports segir að forráðamenn United hafi ekki viljað tjá sig um málið þegar eftir því hafi verið leitað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert