Var Arnautovic að kveðja West Ham?

Marko Arnautovic veifaði bless til stuðningsmanna West Ham áður en …
Marko Arnautovic veifaði bless til stuðningsmanna West Ham áður en hann fór af velli. AFP

Austurríski landsliðsmaðurinn Marko Arnautovic gæti hafa verið að syngja sitt síðasta fyrir West Ham í 1:0-sigri liðsins á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu rétt í þessu.

West Ham barst fyrr í vikunni risatilboð í sóknarmanninn frá ónefndu kínversku liði en tilboðið, að sögn BBC, er sagt hljóða upp á 35 milljónir punda, jafnvirði 5,4 milljarða íslenskra króna. Bróðir Arnautovic, sem er jafnframt umboðsmaður hans, sagði við miðilinn talkSPORT að framherjinn vilji yfirgefa félagið og hann virtist gefa það í skyn á leikvanginum í Lundúnum í dag.

Arnautovic var tekinn af velli á 71. mínútu eftir að hafa átt rólegan leik og hann sneri sér í allar áttir til að veifa til stuðningsmanna West Ham. Í leikslok, er leikmenn, starfslið og stuðningsmenn fögnuðu vel og innilega fræknum og langþráðum sigri gegn nágrönnunum, var Austurríkismaðurinn langfyrstur til að marséra rakleiðis til búningsklefa án þess að taka þátt í fögnuðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert