Erfiðasta verkefnið til þessa

Ole Gunnar Solskjær mætir með Manchester United á Wembley í …
Ole Gunnar Solskjær mætir með Manchester United á Wembley í dag. AFP

Ole Gunnar Solskjær fær í dag sitt erfiðasta verkefni til þessa sem knattspyrnustjóri Manchester United þegar hann mætir með lið sitt á Wembley-leikvanginn í London þar sem andstæðingurinn er lið Tottenham.

United hefur unnið alla fimm leiki sína síðan Solskjær tók við starfinu 19. desember, fjóra þeirra í deildinni um jólin, en nú tekst hann í fyrsta skipti á við eitt af fimm efstu liðum úrvalsdeildarinnar.

Tottenham er í þriðja sæti deildarinar með 48 stig og getur farið upp fyrir Manchester City og í annað sætið, í sólarhring að minnsta kosti, með því að vinna leikinn í dag en hann hefst klukkan 16.30.

United hefur setið í sjötta sætinu frá því Solskjær tók við en gæti náð ákveðnum áfanga með sigri í dag því þá myndi liðið ná Arsenal að stigum. United er með 38 stig, sex stigum á undan Watford sem er í sjöunda sætinu en Arsenal er með 41 stig í fimmta sætinu. Lengra er í land með að ná Chelsea sem er í fjórða sætinu, Meistaradeildarsætinu, með 47 stig eftir sigur á Newcastle í gær, 2:1.

Í fyrri leik dagsins taka Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton á móti Bournemouth á Goodison Park klukkan 14.15. Liðin eru jöfn með 27 stig í ellefta og tólfta sætinu en sigurliðið færi upp fyrir Wolves og í tíunda sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert