Everton vill losna við þrjá leikmenn

Morgan Schneiderlin hefur ekki náð að vinna sér fast sæti …
Morgan Schneiderlin hefur ekki náð að vinna sér fast sæti í liði Everton sem vill selja hann. AFP

Marco Silva knattspyrnustjóri Everton hyggst losa sig við þrjá leikmenn úr sínum hópi í janúarmánuði, samkvæmt frétt Mail on Sunday í dag, og félagið ætlar að reyna að fá alls um 60 milljónir punda fyrir þá.

Þetta eru framherjarnir Oumar Niasse og Cenk Tosun og varnartengiliðurinn Morgan Schneiderlin. Crystal Palace, Fulham og Cardiff eru öll sögð hafa sýnt sóknarmönnunum tveimur áhuga en  verðið standi í þeim, sérstaklega að greiða 20 milljónir punda fyrir Tosun.

Tosun er tyrkneskur landsliðsframherji, 27 ára gamall, sem kom til Everton fyrir ári síðan, í janúar 2018, frá Besiktas en er uppalinn hjá Eintracht Frankfurt í Þýskalandi og lék með yngri landsliðum Þjóðverja áður en hann færði sig yfir til Tyrklands þegar hann var í 21 árs landsliðinu. Hann hefur skorað 7 mörk í 28 leikjum fyrir Everton og 11 mörk í 35 landsleikjum fyrir Tyrki.

Niasse er 28 ára gamall senegalskur framherji sem var keyptur frá Lokomotiv Moskva í janúar 2016 fyrir 13,5 milljónir punda en lék áður í Tyrklandi og með Brann í Noregi. Hann hefur skorað 8 mörk í 31 leik fyrir Everton en var lánaður til Hull seinni hluta tímabilsins 2016-17. Niasse hefur skorað þrjú mörk í 9 landsleikjum fyrir Senegal.

Schneiderlin er 29 ára gamall franskur varnartengiliður sem ólst upp hjá Strasbourg en lék í sjö ár með Southampton eftir að hafa komið þangað 18 ára gamall. Hann lék síðan með Manchester United í tvö ár en Everton keypti hann í janúar 2017. Schneiderlin hefur spilað 50 leiki með Everton í úrvalsdeildinni og 15 leiki með landsliði Frakklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert