„Yrði mikið áfall að missa Kane“

Harry Kane meiddist á ökkla gegn Manchester United í dag.
Harry Kane meiddist á ökkla gegn Manchester United í dag. AFP

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að það yrði stórt vandamál fyrir félagið að missa Harry Kane, framherja liðsins, í meiðsli á þessum tímapunkti. Kane haltraði af velli í leikslok eftir leik Tottenham og Manchester United sem fram fór á Wembley í dag en United fór með sigur af hólmi, 1:0.

Kane meiddist á ökkla undir lok leiksins og haltraði af velli eins og áður sagði en hann þurfti aðstoð frá sjúkraþjálfara Tottenham til þess að komast af vellinum. „Hann þarf að gangast undir einhverjar rannsóknir. Hann lenti í slæmri tæklingu og er bólginn núna. Ég vona að þetta sé ekki alvarlegt en það er erfitt að segja að svo stöddu,“ sagði Pochettino í leikslok.

„Vissulega hef ég áhyggjur. Heung-Min Son er á leið í Asíukeppnina og ef Harry Kane er líka meiddur þá er það stórt vandamál og áfall fyrir okkur, fremst á vellinum,“ sagði stjórinn að lokum en Tottenham er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 48 stig, 9 stigum minna en topplið Liverpool sem á leik til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert