Eru tilbúnir að tvöfalda launin

Marcus Rashford fagnar marki með Manchester United.
Marcus Rashford fagnar marki með Manchester United. AFP

Manchester United ætlar að gera allt sem það getur til að halda sóknarmanninum Marcus Rashford í sínu liði en hann hefur heldur betur náð sér á strik undir stjórn Norðmannsins Ole Gunnars Solskjærs.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að United sé reiðubúið að tvöfalda laun leikmannsins og koma þannig í veg fyrir að hann fari til Real Madrid en Evrópumeistararnir eru sagðir mjög áhugasamir að fá hann til liðs við sig.

Ef Rashford, sem er 21 árs gamall, skrifar undir nýjan samning mun það tryggja honum 150 þúsund pund í vikulaun en sú upphæð jafngildir rúmum 23 milljónum króna. Frá því að Solskjær tók við Manchester-liðinu af José Mourinho hefur liðið unnið alla sex leiki sína þar sem Rashford hefur skorað fjögur mörk.

Rashford á eitt og hálft ár eftir af samningi sínum en United getur framlengt þann samning um eitt ár.

mbl.is