Martial að gera nýjan langtímasamning

Anthony Martial verður áfram í herbúðum Manchester United.
Anthony Martial verður áfram í herbúðum Manchester United. AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Anthony Martial mun skrifa undir nýjan fimm ára samning við Manchester United á næstu dögum samkvæmt heimildum Sky Sports. Martial hafnaði samningstilboði United í október. 

Betur gengur í nýjum samningsviðræðum og virðist Martial spenntari fyrir framtíð sinni hjá félaginu eftir að José Mourinho fékk reisupassann og Ole Gunnar Solskjær tók við.

Samningur Martials átti að renna út í sumar, en United nýtti sér klásúlu í samningnum og framlengdi um eitt ár. Núverandi samningur franska leikmannsins gildir því til 2020. 

Martial er búinn að skora átta mörk í þrettán byrjunarliðsleikjum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og er hann alls búinn að spila 17 leiki. 

mbl.is