Rooney vill ekki að Solskjær verði áfram

Wayne Rooney vill sjá Pochettino hjá Manchester United.
Wayne Rooney vill sjá Pochettino hjá Manchester United. AFP

Wayne Rooney, fyrrverandi leikmaður Manchester United, segir að félagið eigi að gera allt í sínu valdi til að fá Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóra Tottenham, yfir til félagsins í sumar. Rooney vill að Pochettino taki við af Ole Gunnar Solskjær, þótt liðið hafi unnið alla sex leiki sína undir stjórn Norðmannsins, eftir að hann tók við af José Mourinho.

„Ole Gunnar er búinn að gera góða hluti en ef ég fengi að ráða, myndi ég gera allt til að fá Pochettino. Manchester United er þekkt fyrir að nota unga leikmenn og Pochettino er góður í að fá það besta út úr ungum leikmönnum,“ sagði Rooney í samtali við ESPN. 

„Hann er búinn að hjálpa mörgum ungum leikmönnum bæði hjá Tottenham og Southampton og margir þeirra eru landsliðsmenn í dag. Hann er tilbúinn að gefa ungu leikmönnunum tækifæri.“

Rooney var svo spurður út í samband Paul Pogba og José Mourinho, en þeir náðu ekki vel saman hjá United. „Það er erfitt að spila vel þegar sambandið við stjórann er ekki gott. Hann átti erfitt undir Mourinho. Leikmaðurinn og stjórinn voru með stórt egó og útkoman var aldrei líkleg til að vera góð,“ bætti Rooney við. 

mbl.is