Mikel kominn aftur í enska boltann

John Obi Mikel í baráttu við Jón Daða Böðvarsson á …
John Obi Mikel í baráttu við Jón Daða Böðvarsson á HM í sumar. Þeir leika nú báðir í ensku B-deildinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nígeríski miðjumaðurinn Jon Obi Mikel er snúinn aftur í enska boltann en hann hefur samið við B-deildarlið Middlesbrough út yfirstandandi tímabil.

Mikel, sem er orðinn 31 árs gamall, var í 11 ár hjá Chelsea og spilaði 249 leiki í ensku úrvalsdeildinni með liðinu. Hann vann Meistaradeild Evrópu árið 2012 auk þess sem hann varð enskur meistari í tvígang, vann FA-bikarinn þrisvar og Evrópudeildina einu sinni.

Mikel yfirgaf Chelsea fyrir tveimur árum og gekk í raðir Tianjin Teda í Kína, en samningur hans þar í landi rann út í síðasta mánuði. Hann á að baki 85 landsleiki fyrir Nígeríu og spilaði meðal annars með liðinu gegn Íslandi á HM síðastliðið sumar, þar sem hann var fyrirliði liðsins.

Middlesbrough er í 5. sæti ensku B-deildarinnar og er í harðri baráttu um að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni.

mbl.is