Stjóri Arons íhugaði að hætta vegna Sala

Romina Sala, systir Emiliano Sala, við leikvang Cardiff.
Romina Sala, systir Emiliano Sala, við leikvang Cardiff. AFP

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff í ensku úrvalsdeildinni, segir að hann hafi upplifað sína verstu daga á ferlinum í kjölfar hvarfs Emiliano Sala sem félagið keypti frá Nantes á dögunum. Flugvél Sala hefur enn ekki fundist eftir að hún hvarf yfir Ermarsundi.

„Ég hef verið þjálfari í 40 ár og þetta er erfiðasta vikan sem ég hef lifað á ferlinum. Það er engin spurning. Þetta er ömurlegt og ég er enn að reyna að átta mig á þessu,“ sagði Warnock.

Sala var keyptur frá Nantes á laugardegi og varð hann þá dýrasti leikmaðurinn í sögu Cardiff. Hann flaug aftur til Nantes til þess að kveðja liðsfélaga sína og átti að mæta á sína fyrstu æfingu með Cardiff á þriðjudag í síðustu viku. Hann fór í loftið frá Frakklandi á mánudagskvöld og ekkert hefur spurst til hans né flugmannsins David Ibbotson síðan.

„Ég horfi á mín eigin börn og hugsa hvað í ósköpunum ég myndi gera. Þetta er gjörsamlega ömurlegt og ég gef fjölskyldu hans alla mína samúð. Það hefur verið erfitt andrúmsloft hjá liðinu alla vikuna. Ég hef aldrei upplifað svona, enda gerast svona hlutir ekki hversdagslega,“ sagði Warnock.

Hann segist taka aðstæðurnar sérstaklega inn á sig.

„Þetta hefur líklega haft mest áhrif á mig innan félagsins, því ég var búinn að vera í miklum samskiptum við hann og hitti hann nokkrum sinnum. Ég veit hvað hann hlakkaði mikið til að koma til okkar,“ sagði Warnock og viðurkenndi að hafa hugsað um að draga sig í hlé í kjölfar hvarfsins.

„Ég hugsaði um það í 24 tíma á dag í síðustu viku. Ég er meira að segja enn að hugsa um það. Það eru mikilvægari hlutir í lífinu og oft þarf eitthvað svona til þess að átta sig á því.“

Neil Warnock.
Neil Warnock. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert