Getum vel unnið Liverpool

Manuel Pellegrini stjóri West Ham.
Manuel Pellegrini stjóri West Ham. AFP

West Ham hefur ekki átt góða daga upp á síðkastið en Manuel Pellegrini stjóri liðsins vonast til þess að leikmenn hans rífi sig upp og mæti vel stemmdir til leiks gegn toppliði Liverpool á mánudaginn.

West Ham steinlá fyrir Wimbledon, botnliðinu í C-deildinni, í bikarnum um síðustu helgi 4:2 og tapaði svo 3:0 gegn Wolves í deildinni í vikunni.

„Ég held að sjálfsögðu að við getum vel unnið Liverpool, það geta allir unnið alla í þessari deild. Við þurfum að spila á háum hraða eins og við höfum gert á heimavelli á móti bestu liðunum,“ sagði Pellegrini við fréttamenn í dag.

Pellegrini heldur í vonina um að Austurríkismaðurinn Marko Arnautovic geti verið með í leiknum á mánudaginn en meiðslin sem hann varð fyrir í leiknum á móti Úlfunum reyndust ekki eins alvarleg og haldið var í fyrstu.

mbl.is