City niðurlægði Chelsea

Sergio Agüero fagnar þrennu sinni ásamt liðsfélögum sínum gegn Chelsea …
Sergio Agüero fagnar þrennu sinni ásamt liðsfélögum sínum gegn Chelsea á Etihad-vellinum í Manchester í dag. AFP

Sergio Agüero skoraði sína elleftu þrennu fyrir Manchester City þegar liðið niðurlægði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag á Etihad-vellinum í Manchester en leiknum lauk með 6:0-sigri Manchester City.

Rheem Sterlong kom City yfir strax á 4. mínútu og Sergio Agüero tvöfaldaði forystu City níu mínútum síðar. Agüero var aftur á ferðinni á 19. mínútu og Ilkay Gundogan skoraði fjórða mark City á 25. mínútu og staðan því 4:0 í hálfleik.

Agüero innsiglaði þrennuna með marki úr vítaspyrnu á 56. mínútu sem Raheem Sterling fiskaði og það var svo Sterling sjálfur sem skoraði sjötta mark City á 80. mínútu eftir frábært samspil heimamanna í City og þar við sat.

City er komið aftur í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og er með 65 stig, jafn mörg stig og Liverpool sem á leik til góða, en City er með 54 mörk í plús á meðan Liverpool er með 44 mörk í plús. Chelsea er komið í sjötta sæti deildarinnar í 50 stig, jafn mörg stig og Arsenal sem er í fimmta sætinu, en með færri mörk skoruð.

Man. City 6:0 Chelsea opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er að minnsta kosti þrjár mínútur.
mbl.is