Án aðalmarkahróka gegn Tottenham

Marco Reus og Julian Weigl missa af leiknum við Tottenham ...
Marco Reus og Julian Weigl missa af leiknum við Tottenham annað kvöld vegna meiðsla. AFP

Leikmenn þýska liðsins Dortmund eru komnir til Lundúna, aðeins seinna en áætlað var þar sem hinn 18 ára gamli Jadon Sancho gleymdi vegabréfinu heima hjá sér, en Dortmund mætir Tottenham annað kvöld í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu.

Um er að ræða fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum keppninnar. Dortmund verður án fyrirliðans Marco Reus, spænska framherjans Paco Alcácer, varnarsinnaða miðjumannsins Julian Weigl og hægri bakvarðarins Lucasz Piszcek, en allir glíma þeir við meiðsli. Reus og Alcácer eru helstu markahrókar Dortmundar-liðsins en Reus hefur skorað 13 mörk og Alcácer 12 í þýsku 1. deildinni í vetur, þar sem Dortmund trónir á toppnum.

Spænska íþróttablaðið AS segir líklegast að Maximilian Philipp fylli í skarð Reus og Mario Götze verði fremstur, en Alcácer hefur oftast verið í hlutverki varamanns í vetur og nýtt mínútur sínar afar vel til að skora.

mbl.is