Dreymir ekki um að taka við Chelsea

Maurizio Sarri er undir mikilli pressu.
Maurizio Sarri er undir mikilli pressu. AFP

Frank Lampard, knattspyrnustjóri enska B-deildarliðsins Derby County og ein af goðsögnum Chelsea, segist ekki dreyma um að taka við knattspyrnustjórastarfi hjá Chelsea.

Lampard þykir líklegastur til að taka við stjórastarfinu fari svo að Ítalinn Maurizio Sarri verði rekinn en hitnað hefur heldur betur undir honum eftir skelfilega útreið Chelsea gegn Englandsmeisturum Manchester City í fyrradag. Lampard lék í 13 ár með Chelsea og er markahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins.

Lampard var spurður út í málið á fréttamannafundi í gær en lið hans mætir Ipswich í ensku B-deildinni annað kvöld.

„Mitt starf er hér hjá Derby. Við vinnum hörðum höndum og hugur minn er við leikina við Ipswich á miðvikudaginn og Brighton í bikarnum á laugardaginn,“ sagði Lampard.

„Fyrir Chelsea var þetta erfiður dagur á sunnudaginn. En hjá öllum toppliðum er mikilvægt að koma sterk til baka og skiptir þá ekki máli hver úrslitin voru,“ sagði Lampard.

Chelsea mætir Arnóri Ingva Traustasyni og félögum hans í Malmö á útvelli í Evrópudeildinni á fimmtudaginn og tekur svo á móti Manchester United í ensku bikarkeppninni á mánudaginn.

mbl.is