Gordon Banks er látinn (myndskeið)

Gordon Banks, til hægri, tekur í höndina á Nikita Simonjan, …
Gordon Banks, til hægri, tekur í höndina á Nikita Simonjan, fyrrverandi leikmanni sovéska landsliðsins. AFP

Goðsögnin Gordon Banks er látinn, 81 árs gamall. Banks lék 73 landsleiki fyrir Englendinga og varði mark þeirra þegar þeir hömpuðu heimsmeistaratitlinum á heimavelli árið 1966.

Banks lék 638 leiki á knattspyrnuferli sínum og hefur verið talinn einn besti markvörður í sögu fótboltans. Hann hóf sinn feril með Chesterfield og þá lék hann frá 1959 til 1973 með Leicester City og Stoke City, þar sem hann vann enska deildabikarinn með báðum liðunum, en þurfti síðan að draga sig í hlé eftir að hafa misst sjón á öðru auga í bílslysi. Hann tók þó fram hanskana á ný og lék með bandaríska liðinu Fort Lauderdale Strikers árin 1977 og 1978, og var fyrra árið valinn besti markvörður deildarinnar þar í landi.

Banks var sex ár í röð valinn markvörður ársins hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, frá 1966 til 1971, og knattspyrnumaður ársins á Englandi 1972.

Banks lék sinn fyrsta landsleik árið 1963 og á heimsmeistaramótinu árið 1970 varði hann með ótrúlegum hætti skalla frá Pele sem margir hafa nefnt sem eina bestu markvörslu í sögunni en hana má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert