Gott að hann varði frá mér

Gordon Banks og Pelé afhenda í sameiningu Thierry Henry verðlaun …
Gordon Banks og Pelé afhenda í sameiningu Thierry Henry verðlaun árið 2004. Reuters

Brasilíumaðurinn Pelé, sem af mörgum er talinn besti knattspyrnumaður allra tíma, segist vera ánægður með að Gordon Banks skyldi verja skallann frá sér á sínum tíma því þetta atvik hafi leitt til ævilangrar vináttu þeirra.

Margoft hefur verið vísað til markvörslu Banks, sem lést í nótt, 81 árs að aldri, frá Pelé á heimsmeistaramótinu í Mexíkó árið 1970 sem bestu markvörslu allra tíma en það var í viðureign Englendinga og Brasilíumanna í riðlakeppninni á því móti.

Pelé skrifaði fyrir stundu um Banks á Facebook og fór  fögrum orðum um vin sinn:

„Margir minnast Gordon Banks sérstaklega vegna markvörslunnar þegar hann varði frá mér árið 1970. Ég skil vel ástæðuna.

Þetta er einhver besta markvarsla sem ég hef séð á ævinni, í öllum þeim þúsundum leikja sem ég hef horft á allar götur síðan.

Fótboltamaður veit nákvæmlega hversu vel hann hittir boltann á því augnabliki. Ég náði að skalla að marki nákvæmlega eins og ég hafði vonast eftir. Allt í einu birtist hann og gerði nokkuð sem ég taldi ekki mögulegt. Einhvern veginn tókst honum að slá boltann upp og yfir markið. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Jafnvel þegar ég horfi á upptöku af þessu í dag, trúi ég þessu varla, að hann skyldi hafa getað komist þessa vegalengd á þessum hraða.

Ég skoraði mörg mörk á ferlinum en það fyrsta sem margir spyrja mig að þegar þeir hitta mig er þessi markvarsla. Þó að hún hafi verið stórfengleg, er hún ekki það sem ég minnist Gordons best fyrir - ég minnist best vináttunnar. Hann var góð og hlý manneskja sem gaf svo mikið af sér til annarra.

Ég er því ánægður með að hann skyldi verja skallann frá mér - því það var upphafið að vináttu okkar sem ég mun ávallt hafa í heiðri. Í hvert skipti sem við hittumst var eins og við hefðum aldrei verið aðskildir.

Ég er afar dapur í dag og sendi fjölskyldunni sem hann var svo stoltur af mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hvíldu í friði, vinur minn. Já, þú varst töfrum gæddur markvörður. En þú varst líka mikið meira. Þú varst góð manneskja.

mbl.is