Özil búinn að missa af 100 leikjum

Mesut Özil.
Mesut Özil. AFP

Þjóðverjinn Mesut Özil hefur nú misst af 100 leikjum með Arsenal frá því hann kom til liðsins frá Real Madrid fyrir fimm og hálfu ári.

Özil var fjarri góðu gamni með Lundúnaliðinu í gær þegar það tapaði fyrir hvítrússneska meistaraliðinu BATE Borisov 1:0 í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Özil, sem er 30 ára gamall og gerði nýjan samning við Arsenal í janúar, hefur aðeins komið við sögu í tveimur leikjum Arsenal frá því á öðrum degi jóla. Hann hefur misst af leikjum vegna veikinda og þá hefur hann ekki fallið inn í leikskipulag Unai Emery í mörgum leikjum. Özil var orðinn heill heilsu en Emery valdi hann ekki í leikmannahópinn sem fór til Hvíta-Rússlands.

Özil er ekki á neinum sultarlaunum hjá Arsenal en hann fær 350 þúsund pund á viku sem jafngildir 54 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert