Ferguson snýr aftur á hliðarlínuna

Sir Alex Ferguson mun stýra Manchester United í góðgerðarleik á …
Sir Alex Ferguson mun stýra Manchester United í góðgerðarleik á Old Trafford 26. maí næstkomandi gegn Bayern München. AFP

Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, mun stýra liðinu á nýjan leik í góðgerðarleik á Old Trafford 26. maí næstkomandi en það er BBC sem greinir frá þessu. United og Bayern München mætast í tuttugu ára afmælisleik en tuttugu ár eru frá úrslitaleik liðanna í Meistaradeildinni á Nývangi árið 1999 þar sem United fagnaði 2:1-sigri eftir ótrúlegar lokamínútur.

Leikmenn sem tóku þátt í leiknum á Spáni fyrir tuttugu árum munu spila í leiknum og verður Ole Gunnar Solskjær, núverandi knattspyrnustjóri United, því í leikmannahópnum en hann skoraði sigurmark United gegn Bayern árið 1999 og tryggði liðinu Evróputitilinn. Ferguson hætti þjálfun árið 2013 en hann er orðinn 77 ára gamall.

Ferguson er sigursælasti þjálfari enskrar knattspyrnu en hann vann alls 38 titla á 26 ára ferli sínum sem knattspyrnustjóri. Allur ágóði af leiknum mun renna til Manchester United-samtakanna sem sérhæfa sig í góðgerðarstarfsemi í Manchester-borg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert