Pattstaða hjá Özil og Arsenal

Mesut Özil virðist ekki eiga mikla framtíð hjá Arsenal þrátt …
Mesut Özil virðist ekki eiga mikla framtíð hjá Arsenal þrátt fyrir að hafa skrifað undir nýjan samning í febrúar á síðasta ári. AFP

Mesut Özil, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, fær lítið að spila með liðinu þessa dagana. Özil skrifaði undir nýjan risasamning við félagið í febrúar á síðasta ári sem færir honum 350.000 pund á viku í laun og er hann launahæsti leikmaður liðsins.

Özil var ekki í leikmannahópi Arsenal sem tapaði 1:0 fyrir BATE í fyrri leik liðanna í Hvíta-Rússlandi í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn og vilja enskir fjölmiðlar meina að forráðamenn Arsenal geri nú allt til þess að losna við leikmanninn.

Özil sjálfur vill ekki fara á láni í skamman tíma heldur vill hann finna sér nýtt félag ef hann á að fara. Fá félög eru tilbúin að borga uppsett verð fyrir Þjóðverjann, sem og  taka á sig launakostnað hans, og því reynir Arsenal nú að lána til þess að lækka útgjöldin en leikmaðurinn harðneitaði að fara til PSG á láni í janúarglugganum.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Özil eigi litla framtíð hjá félaginu á meðan Unai Emery er knattspyrnustjóri liðsins en Özil hefur byrjað 13 leiki í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð þar sem hann hefur skorað þrjú mörk og lagt upp eitt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert