Varar sína menn við Newport

Leikmenn Newport fagna marki í óvæntum sigri á Leicester í …
Leikmenn Newport fagna marki í óvæntum sigri á Leicester í bikarkeppninni í janúar. AFP

Einhver fyrirsjáanlegasti leikur helgarinnar í ensku knattspyrnunni ætti að vera viðureign D-deildarliðsins Newport County gegn toppliði úrvalsdeildarinnar, Manchester City. Pep Guardiola, stjóri City, varar þó sína menn við andstæðingunum.

Newport er frá Wales og situr í 15. sæti af 24 liðum í ensku D-deildinni. Félagið á langa sögu í neðri deildum Englands og lék meira að segja fyrir hönd Wales í Evrópukeppni bikarhafa á níunda áratug síðustu aldar. Tímabilið 1980-81 sló liðið í gegn með því að komast í átta liða úrslit þar sem það sló út mótherja frá Norður-Írlandi og Noregi áður það tapaði naumlega fyrir Carl-Zeiss Jena sem þá var öflugt lið í Austur-Þýskalandi.

Newport varð hinsvegar gjaldþrota nokkrum árum síðar og datt út úr deildakeppninni árið 1988 eftir sextíu ára dvöl þar. Þangað komst Newport aftur árið 2013.

Guardiola segir að Newport verði afar erfiður andstæðingur og hættulegur á ákveðnum sviðum.

„Þeir eru stærri og sterkari en við og á sumum svæðum verða þeir betri en við. Þeir hafa staðið sig ótrúlega vel í þessari keppni og gera sína hluti virkilega vel. Við höfum skoðað fjölmarga leiki þeirra. Í þeirra liði eru menn með 14-15 mörk á tímabilinu og þeir eru ótrúlegir í uppstilltum atriðum," sagði Guardiola við BBC og minnti á að sitt lið hefði verið slegið út af C-deildarliði Wigan í keppninni á síðustu leiktíð.

Leikmenn Newport fagna þegar sigurleikur þeirra við Middlesbrough í 32ja …
Leikmenn Newport fagna þegar sigurleikur þeirra við Middlesbrough í 32ja liða úrslitum var flautaður af. AFP

Newport  gerði sér lítið fyrir og sló út eitt af efstu liðum B-deildarinnar, Middlesbrough, í 32ja liða úrslitunum með 2:0 sigri á heimavelli eftir 1:1 jafntefli á útivelli. Þar á undan skellti liðið úrvalsdeildarliði Leicester með mögnuðum heimasigri, 2:1.

Walesbúarnir eru því sýnd veiði en ekki gefin og það verður fróðlegt að sjá hvernig þeim tekst að eiga við stjörnum prýtt lið City, sem rótburstaði C-deildarliðið Burton Albion 10:0 samanlagt í undanúrslitum deildabikarsins ekki alls fyrir löngu. Viðureign liðanna hefst kl. 17.30 á Rodney Parade leikvanginum í Newport en hann rúmar tæplega 12 þúsund áhorfendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert