Firmino og Lovren tæpir fyrir morgundaginn

Roberto Firmino hefur skorað ellefu mörk í öllum keppnum fyrir ...
Roberto Firmino hefur skorað ellefu mörk í öllum keppnum fyrir Liverpool á þessari leiktíð. AFP

Liverpool tekur á móti Bayern München í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á morgun á Anfield. Þeir Roberto Firmino og Dejan Lovren, leikmenn Liverpool, æfðu hvorugur með liðinu í dag en Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, greindi frá þessu á blaðamannafundi sínum fyrir leikinn í morgun.

Firmino hefur verið algjör lykilmaður í sóknarleik liðsins á þessari leiktíð en hann er að glíma við veikindi og því óvíst hvort hann geti tekið þátt í stórleiknum á morgun. Þá hefur Lovren ekkert spilað með liðinu síðan 7. janúar síðastliðinn. Virgil van Dijk er í leikbanni og þá er Joe Gomez, varnarmaður Liverpool, enn þá frá vegna meiðsla á ökkla.

Varnarlína liðsins er því ansi þunnskipuð og fari svo að Lovren verði ekki orðinn leikfær á morgun gera enskir fjölmiðlar ráð fyrir því að varnarsinnaði miðjumaðurinn Fabinho muni leika í hjarta varnarinnar ásamt Joel Matip. 

mbl.is